154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:26]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Í því plaggi sem við ræðum, fjármálaáætlun 2025–2029, segir um orkumál, í 15. kafla, að framtíðarsýn stjórnvalda sé að Ísland sé land hreinnar orku, meginmarkmið málefnasviðsins sé orkuöryggi og að jarðefnaeldsneyti víki alfarið fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Svo eru tveir aðrir punktar líka: Hvernig er hægt að hafa þá framtíðarsýn að Ísland sé land hreinnar orku þegar einungis 13% af orku til neytenda eru hrein? Það er búið að selja upprunann til Evrópu. (Gripið fram í: Nei.) Það er búið að selja það — þetta eru ekki vitleysingar sem eru að kaupa þessi upprunavottorð, það er bara ekki þannig. 63% af uppruna orkunnar eru kol og olía, 24% kjarnorka. Hvernig getur Ísland staðið undir nafni sem land hreinnar orku þegar það er búið að selja upprunann? Það getur verið samfélag hérna við á hliðina okkur, 400.000 manna samfélag við hliðina okkur, sem er algerlega grænt af því að kaupa upprunavottorð á Íslandi.

Annað atriði sem mig langar að spyrja um er: Hver er tilgangurinn með lögum um raforkuviðskipti yfir landamæri þegar við stundum ekki raforkuviðskipti yfir landamæri? Af hverju erum við með regluverk í íslenskri löggjöf um raforkuviðskipti yfir landamæri þegar við seljum ekki raforku yfir landamæri? Það gera Norðmenn vissulega en við gerum það ekki. Við gætum alveg verið með lög um t.d. járnbrautir, skipaskurði. En við erum ekki að því af því að við erum ekki með járnbrautir og við erum ekki með skipaskurði.

Það þriðja sem mig langar að spyrja um varðandi orkuöryggið, og það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra hér rétt áðan, er að lítið hefur verið um orkuöflun síðastliðin 20 ár og það er orkuskortur í landinu. Spurningin er þessi: Hvenær á að fara að virkja?